Með stórauknum fjölda ferðamanna yfir hátíðarnar er nær ógjörningur að fá borð á veitingastöðum án þess að hafa pantað það löngu fyrirfram. Þetta gerir að verkum að á hátíðisdögum myndast langar raðir fyrir utan þá skyndibitastaði sem opnir eru í miðbænum og verða þeir sem ekki eiga borð því að gera sér að góðu það sem í boði er. Á aðfangadag biðu til að mynda yfir fimmtíu manns afgreiðslu við Bæjarins beztu og náði röðin alla leið út að Hafnarstræti. Ástæðu þess hve hve þaulsetin veitingahúsin eru á hátíðisdögum mætti einnig rekja til þess að æ fleiri Íslendingar velja að fara út að borða um hátíðarnar. Hásumarið trónir enn á toppnum sem annasamasti tíminn í ferðaþjónustunni, en vetrarheimsóknir ferðamanna hafa færst mjög í vöxt á síðustu árum og er streymi ferðamanna nokkuð jafnt yfir árið og nýtur verslun og þjónusta í miðborginni góðs af.