Stærri og öflugri upplifun fyrir Ísland-Frakkland á morgun

500w

Eftir frækinn sigur íslenska fótboltalandsliðsins á Englendingum er nú allt lagt undir. Margir ætla að leggja land undir fót til Parísar til að styðja við okkar menn, en frést hefur að óvenju mikið álag sé á þjónustusímum Icelandair vegna EM leikanna um þessar mundir. Þeir stuðningsmenn sem eiga ekki heimangengt geta safnast saman og stutt Ísland á Arnarhóli á morgun. Rífandi stemning var nú síðast á Arnarhóli í leiknum gegn Englendingum og í tilefni af velgengni íslenska liðsins er nú blásið til enn stærri viðburðar með uppsetningu á stærri skjá og öflugra hljóðkerfi svo fólk heyri og sjái eins vel og auðið er þegar Íslendingar mæta Frökkum í átta liða úrslitum á morgun. Lokað verður fyrir umferð á nærliggjandi götum frá klukkan 16:00 og hefst útsetningin klukkan 17:00. Settur verður upp pallur fyrir hreyfihamlaða og hjólagrindum fyrir þá sem leggja leið sína í miðbæinn á hjóli, svo allir sem vettlingi geta valdið ættu að geta mætt til leiks. Viðburðurinn er samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar, Íslenskrar Getspár, Landsbankans, Icelandair, Coca-Cola, KSÍ, N1, Símans og Borgunar. Búist er við miklum fjölda á Arnarhóli og stemningu eftir því. Þá er bara að krossa fingur og vona að okkar menn leiki til sigurs og tryggi sér þannig sæti í fjögurra liða úrslitum á EM. Áfram Ísland!

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.