Sykurmolar feta ljóssins stigu

Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna að þessu sinni féllu í skaut Sykurmolunum eins og kunnugt er.

Hljómsveitin var stofnuð árið 1986 og varð á því sama ári þekkt um víða veröld er smáskífan Ammæli sló í gegn, með enskum texta og undir heitinu Birthday. Æfingabúðir Sykurmolanna voru um langt skeið í miðborginni, nánar tiltekið við Barónsstíg þar sem nú er veitingahúsið Argentína, skáhallt á móti því húsi er áður var fjós og mjólkurvinnsla barónssins franskættaða sem gatan er nefnd eftir. Gamla Barónsfjósið hýsir nú verslun 10-11.

Fyrstu hljóðupptökur Sykurmolanna áttu sér einnig stað í miðborginni, í stúdíó Sýrlandi við Grettisgötu 8, en þar hljóðritaði sveitin m.a. sinn fyrsta smáskífusmell, Ammæli, sem skaut sveitinni í fyrsta sæti óháða listans í Bretlandi.

Þá hefur Smekkleysa, útgáfufyrirtæki Sykurmolanna, frá upphafi átt sínar höfuðstöðvar við Laugaveg og rekur þar m.a. vinsæla hljómplötuverslun enn í dag, reyndar þá einu slíka sem eftir lifir við Laugaveg.

Allir Sykurmolarnir nema einn voru viðstaddir heiðursverðlaunaafhendinguna úr hendi mennta- og menningarmálaráðherrans, Illuga Gunnarssonar. Björk Guðmundsdóttir var stödd í New York vegna útgáfu nýrrar breiðskífu sinnar og sendi þjóð sinni hugheilar þakkir og kveðjur sem Margrét Örnólfsdóttir las upp. Hún flutti jafnframt stutta ræða fyrir hönd hljómsveitarinnar, að hluta í bundnu máli.

Það er í senn áhugavert og ánægjulegt hve farsæla slóð Sykurmolarnir hafa fetað sem einstaklingar eftir að hljómsveitin hætti að starfa reglubundið, en hún kom síðast saman 2006. Margrét Örnólfsdóttir og Bragi Ólafsson eru bæði afkastamiklir og vinsælir rithöfundar og hafa m.a. samið ljóð, leikrit, söngleiki og komið að kvikmyndagerð. Einar Örn Benediktsson stofnsetti Besta flokkinn ásamt Jóni Gnarr og fleirum og gegndi m.a. formennsku í Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkurborgar ásamt því að sinna áhugaverðum störfum í vefheimum og ekki síst í hljómsveitinni Ghostdigital. Þór Eldon starfar sem laga- og textahöfundur, gítarleikari og upptökustjóri með meiru og Sigtryggur Baldursson er framkvæmdastjóri ÚTÓN, útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar auk þess að vera eftirsóttur hljóðfæraleikari og söngvari, m.a. í hlutverki Bogomil Font. Þá fagnaði Friðrik Erlingsson, fyrsti gítarleikari Sykurmolanna mikilli velgengni á sl. ári er Ragnheiður, ópera hans og Gunnars Þórðarsonar sló öll fyrri aðsóknarmet Íslensku óperunnar og vann til margvíslegra verðlauna. Friðrik hefur verið afkastamikill rithöfundur og textagerðarmaður um árabil ásamt því að starfa á auglýsingastofu. Ekki þarf að fjölyrða um farsæld Bjarkar sem er þekktasti Íslendingur allra tíma og í senn sá söluhæsti og virtasti á sínu sviði.

Á annarri meðfylgjandi ljósmynda getur að líta þann Sykurmolann sem ekki átti heimangengt í Hörpuna til að veita verðlaununum viðtöku. Á myndinn er Björk hins vegar sjálf að afhenda verðlaun í Hörpunni fyrir bestu norrænu kvikmyndatónlistina. Á myndinni getur einnig að líta náinn vin og samstarfsmann Sykurmolanna, Hilmar Örn Hilmarsson kvikmyndaSykurmolarnirtónskáld og allsherjargoða Ásatrúarmanna.

Sykurmolunum eru færðar innilegar hamingjuóskir með heiðursverðlaunin margverðskulduðu.

björk, jake & composers
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.