Litadýrðin var í algleymingi þegar um tólf þúsund manns komu saman í Hljómskálagarðinum til að hlaupa eftir fimm kílómetra varðaðri leið um miðbæinn þar sem þeir fengu yfir sig litapúður í öllum regnbogans litum undir dynjandi tónlist. Leiðin hlauparanna endaði svo aftur í Hljómskálagarðinum þar sem Páll Óskar skemmti við rífandi undirtektir. Þetta er í annað sinn sem The Color Run er haldið en uppselt var á viðburðinn og þátttakendur tvö þúsund fleiri en í fyrra. The Color Run er í boði lyfjafyrirtækisins Alvogen og þykir ein litríkasta og skemmtilegasta fjölskylduskemmtun sem boðið er uppá. Hlaupið hefur farið sigurför um heiminn en það styður við réttindi og velferð barna. Í ár úthlutaði Alvogen sex milljónum til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og Rauða Krossins. En í fyrra hlutu UNICEF, Rauði krossinn og Íþróttasamband fatlaðra styrk úr sjóðnum. Engin tímataka er í hlaupinu, enda er það skemmtihlaup en ekki keppni og markmiðið hlauparanna að taka þátt og styrkja um leið gott málefni.