Vá! Þú ert bara ennþá hérna!

f58773fe-ec2b-44a8-b6d2-d949539ac268

Helgi Sigurðsson hefur starfað sem úrssmiður frá árinu 1958. Hann flutti sig yfir á Skólavörðustíg 3 árið 1967 og hefur verið með verslun og verkstæði þar síðan sem setur sterkan svip á Skólavörðustíginn. Verslunin verður 50 ára á næsta ári. Helgi er á níræðisaldri og stendur enn vaktina.

“Ég er elsti starfandi úrsmiður á landinu. Þegar ég kem hingað með búðina eru fimm úrsmiðir á Skólavörðustígnum og ég er sá eini sem er eftir. Ég geri við úr sem hafa bilað og smíða stykki í þau sem vantar eða hafa brotnað. Ég læt standa hér á hurðinni að ég komi klukkan ellefu og reyni að standa við það. Svo er ég við til sex, fer ekkert í mat eða svoleiðis. Það er alltaf fullt að gera við. Sem betur fer.”

Helgi vinnur mikið og hefur gert alla tíð. Lengi vel var gerði hann einnig við klukkur og var með verkstæði heima en í seinni tíð hefur hann eingöngu sinnt úrunum. Auk þess að vera með viðgerðarþjónustu hefur Helgi veggklukkur og nokkuð úrval armbandsúra til sölu. Hann kýs látlaus, vönduð úr fram yfir tískuvöru.

,,Ég er bara með þetta sem er algengast svona fyrir allt venjulegt fólk. Þessi merkjavara, sem kostar nokkur hundruð þúsund; það er ekki hægt að elta það. Enda færi enginn inní svona litla búð í leit að slíku. Áður var ég líka með verkstæði heima, stórt og mikið pláss, gerði við klukkur tók allar úraviðgerðir fyrir herinn. Ég fór alltaf suður í Keflavík á þriðjudögum eftir hádegi og skilaði og sótti úr til viðgerðar. Þá var nú Keflavíkurvegurinn ekki malbikaður heldur bara svona möl. En þetta komst uppí vana og svo kom malbikið og þá var þetta ekkert mál. En ég var samt alltaf faktískt í tvöfaldri vinnu og vann mikið á nóttunni. Ég var náttúrulega með konu og fimm börn svo þá var það besti tíminn að vinna þegar var komin ró á heimilinu og allir sofnaðir. “

Ævistarf Helga í faginu er langt og farsælt. Starfið heldur honum gangandi og að hans sögn er hann alls ekki síður starfandi sjálfs síns vegna en viðskiptavinanna. Fastakúnnarnir eru margir sem safnast hafa yfir þetta langa skeið og nóg um að vera á hverjum degi á Skólavörðustíg 3. En hvað varð til þess að Helgi leiddist út í úrsmíðina?

,,Það var nú eins og allt í lífinu eða mest, bara tilviljun sem réði því. Ég lærði í Iðnskólanum og svo hjá úrsmíðameistara. Síðar fór það að tíðkast og tíðkast enn að allir fari í Danska Úrsmíðaskólann. Það er góður skóli í Ringsted sem tekur á móti Íslendingum. Strákurinn minn var þarna á sínum tíma og allt í góðu með það. Heimavistaskóli og svoleiðis. En þetta var ekki til þegar ég var að læra. Þá mætti maður bara í vinnu klukkan níu. Ég var með mjög góðan meistara. Hann hét Karl Guðmundsson hjá fyrirtækinu Jóhannes Norðfjörð við Austurvöll. Vissulega þarf þolinmæði í að vera úrsmiður, en svo er þetta eins og með aðra vinnu að svo er þetta ekkert erfitt þegar maður er búinn að ná góðum tökum á þessu. Ég veit ekki annað en að ég muni halda áfram. Ég er áttatíu og tvegga ára, enda kemur fólk hérna í dyrnar og segir ,,Vá! þú er bara ennþá hérna!” og ég segi já! hvað á ég að gera? Ég er við góða heilsu og það er gaman í vinnunni og ég hitti margt fólk og það er nóg að gera alltaf að sinna þessum gömlu kúnnum mínum. Þeir eru á öllum aldri þannig að það getur ekki verið betra.”

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík