Valentínusardagur = Valdísardagur er á fimmtudaginn 14.febrúar

Valentínusardagurinn hefur á undanförnum árum verið að festa sig í sessi sem dagur elskenda á Íslandi og jafnframt sem dagur tilhugalífs, dagur vonbiðla , dagur ásta í meinum og leynum. Hvorki blómasalar né aðrir kaupmenn hafa farið varhluta af þessu og hefur gjafavara af ýmsu tagi orðið búhnykkur mörgum á annars fremur rólegum tímum í kaupskap.

Margir vilja eigna dagskrárgerðarkonunni Valdísi Gunnarsdóttur heiðurinn af stækkandi hópi Valentínusarfylgjenda, en hún starfaði um árabil á Bylgjunni og lagði mikla rækt við hinar rómantískari nóturnar, m.a. allt sem tengdist Valentínusardeginum.

Heilagur Valentínus er goðsagnakenndur kristinn dýrlingur frá miðöldum sem sagður er hafa verið tekinn af lífi fyrir að líkna rómverskum hermönnum og gefa saman fólk sem ekki mátti eigast. Hinsta kveðja hans er sögð hafa verið til dóttur mannsins sem tók hann af lífi og mun hafa verið svohljóðandi: Frá þínum Valentínusi.

Huga mætti að því hvort færa mætti þennan einkennisdag ástarinnar nær okkur í tíma og rúmi hér á Íslandi og nefna hann einfaldlega: Valdísardag. Þannig mætti í senn tengja daginn dísinni sem velur fólki lífsförunauta og leiðir það saman, en jafnframt nefna daginn eftir manneskjunni sem hóf innleiðingu hans í íslensku samfélagi, Valdísi Gunnarsdóttur.

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík