Dömukvöldið sem haldið var öðru sinni á Laugavegi fimmtudaginn 3.október heppnaðist prýðisvel og lögðu fjölmargar dömur leið sína á vit Lokkandi Laugavegar fram eftir kvöldi, en verslanir voru opnar til kl. 21:00 og sumar lengur.
Það færist í vöxt að fimmtudagar séu nýttir til félagslífs og upplyftingar í miðborginni. Sú var sannarlega raunin umrætt kvöld og enduðu ófáir kvöldið með heimsókn á eitt af fjölmörgum veitingahúsum miðborgarinnar að afloknu sprundaspranginu.