Mokka kaffi
Mokka-Kaffi á Skólavörðustíg 3a var stofnað árið 1958 af hjónunum Guðnýju Guðjónsdóttur og Guðmundi Baldvinssyni og er staðurinn enn í eigu sömu fjölskyldu. Mokka er eitt af elstu kaffihúsum í Reykjavík og fyrst kaffihúsa á Íslandi til að kynna ítalska kaffigerð, þar sem hver bolli er lagaður sérstaklega.
Boðið er upp á gott ítalskt kaffi, heitt súkkulaði og að mati margra bestu vöfflur bæjarins. Myndlistarsýningar hafa verið á staðnum frá upphafi og margir virtir listamenn haldið þar sýningar. Staðurinn hefur lítið sem ekkert breyst í gegnum árin og er fastur punktur í tilveru margra gesta.
Á sumrin eru borð og stólar utandyra þegar veður leyfir en á Skólavörðustíg er mikil veðursæld.