Vinnustofan opnuð með nýju sýningarrými

357f20cc-84c0-4a45-ad93-e2e43354224a

Myndlistarmaðurinn Úlfar Örn Valdemarsson er þúsundþjalasmiður í víðasta skilningi orðsins og hefur komið víða við á ferlinum, m.a. í auglýsingateiknun, innréttingu veitingastaða, gerð glerskúlptúra, leikmyndahönnun og fleira. Hans stærsta ástríða er þó myndlistin en hann hefur haldið einkasýningar á Sólon Íslandus og víðar, auk þess sem verk hans eru til sölu hjá Gallerí List. Fyrir nær áratug tryggði Úlfar Örn sér húsnæði á Vesturgötu í útjarðri miðbæjarins og gerði það að vinnustofu sinni. Nú eru ákveðin vatnaskil hjá Úlfari Erni, þar sem hann hann ákvað að gera upp og taka hluta vinnustofunnar undir móttöku fyrir gesti og kaupendur verka sinna og hefja rekstur glæsilegs sýningarrýmis í samstarfi við eiginkonu sína Önnu Svövu Sverrisdóttur.

“Það sem gerði að ég stoppaði við þetta húsnæði á sínum tíma var lofthæðin, sem gerir það að svo góðu og bjóðandi vinnurými. Hingað til hef ég notað það til að vinna verkin sem ég hef sýnt á einkasýningum, en nú erum við búin að skipta rýminu þannig að það er sýningarsalur vestan megin”

Úlfar Örn hefur stundað myndlistina meðfram öðrum störfum í gegnum árin en á síðustu árum hefur hún æ orðið viðameiri. Með tilkomu þessa nýja sýningarsals er í raun verið að opna vinnustofu Úlfars fyrir gestum og gangandi en kaupendur og aðrir áhugasamir hafa á undanförnum árum sóst í auknum mæli eftir að heimsækja Úlfar á vinnustofuna. Sýningarsalurinn því kærkomin viðbót við starfsemi listamannsins þar sem nú er hægt að bjóða einstaklinga og hópa velkomna í sýningarrými þar sem verkin fá að njóta sín í viðeigandi lýsingu í huggulegum salarkynnum.

“Ég hef mest haldið einkasýningar á Sólon, sem er gríðarlega merkilegur og fjölsóttur staður og ég hef fundið vel fyrir hvað þær hafa verið góð kynning. Ég hafði áður sýnt nokkrum sinnum með löngum hléum en mínum huga var fyrsta stóra sýningin mín sýningin Fákar sem ég hélt í hlöðu á Sumarliðabæ við Hellu 2008 í tengslum við Landsmót Hestamanna. Þetta var þrjátíu mynda sýning sem heppnaðist ótrúlega vel og var sótt af fleiri hundruð manns og markaði upphaf samstarfs míns við Gallerí List. Það hefur verið mjög gott í gegnum árin og mun halda áfram. Okkur finnst það svolítið skemmtilegt að geta vísað hvert á annað”

Sýningarrými Úlfars Arnar verður formlega opnuð í byrjun júní, en áhugasömum er bent á facebook síðu hans https://www.facebook.com/ulfarornv/

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík