Mýrarskuggar

Viðfangsefnið á sýningunni Mýrarskuggar sækir Sigtryggur í votlendi norður í Héðinsfirði þar sem fjölskylda hans festi kaup á landskika. Þar hefur hann dvalið löngum stundum í huganum og eru skuggarnir sem vatnagróðurinn býr til ofan í mýrlendinu kveikjan að verkunum á sýningunni. Mýrarskuggar verða ljóðrænt náttúrufyrirbrigði – myrk augu – sem gefa sýn ofan í hinar mikilvægu en forsmáðu mýrar. Mýrarnar hafa nú öðlast óvænt hlutverk í baráttunni miklu við eina helstu ógn mannkyns, hlýnun jarðar. Skuggarnir kastast af votlendisgróðri á kvikum vatnsfleti mýranna og taka af því form. “Ég upplifi það hálfgerða þegnskylduvinnu að benda á þá duldu og dulmögnuðu fegurð sem í mýrunum býr því nú má segja að okkur beri skylda til að breyta uppþurrkuðum og misvel nýttum landspildum í sitt fyrra votlendisform og bæta þar með við lungu jarðarinnar,” segir Sigtryggur.

Á sýningunni, sem er önnur einkasýning Sigtryggs Bjarna í Hverfisgalleríi, er að finna bæði olíumálverk og vatnslitamyndir sem vitna á áhrifaríkan hátt í dulúð og hljóðláta fegurð hins íslenska mýrarlands, litadýrðina og gróðurinn sem þar er að finna. Oft á tíðum verða skuggarnir meginviðfangsefnið þar sem bæði mýrargróðurinn og vatnsfletirnir hafa verið fjarlægðir en eftir stendur vottur af veru þeirra á pappírnum, eins konar draugar gróðursins. Síðustu árin hefur Sigtryggur einbeitt sér að því að gera stökum náttúrufyrirbrigðum skil í málverki, vatnslitamyndum og ljósmyndum. Hann leitast við að draga fram eðlisþætti svo sem hljómfall og takt og myndgera þá síkviku mynstursgerð sem taka má eftir í laufskrúði, gróðurþekjum, vatnsflötum og straumkasti rennandi vatns. Mynsturnet sjávarlöðurs og ,,regluleg óregla” ljósbrots sólar á haffleti hafa verið rannsóknarefni og byggingarstoðir málverka hans.

Þrjú verk á sýningunni tileinkar Sigtryggur Karli Kvaran en það eru litastúdíur unnar með gouache litum Karls Kvarans. Áferð myndanna er gróf og virðast litirnir hafa verið illa höndlanlegir og þurrir í notkun eftir margra ára geymslu. Verkin eru formrænni útfærsla á skuggum mýrlendis.

Líkt og Hringur Jóhannson hafði heimahaganna, Aðaldal í Þingeyjarsýslu, fyrir augunum við túlkun sína á náttúrunni hefur Sigtryggur Héðinsfjörðinn og mýrlendin sem þar eru að finna. Ólíkt verkum t.d. Eggerts Péturssonar sem endurskapar gróður úr íslenskri náttúru, nýtir Sigtryggur aðrar aðferðir við að fást við myndefnið sígilda. Þögul rómantísk íhugun á náttúrumótífum er einkennandi í túlkun þessara þriggja listamanna á náttúrunni en leyfir Sigtryggur sér að fjarlægast fígúratífa nálgun og dregur einnig fram formræna þætti málverksins. ,,Mér er það heilagt að treysta þeim breytingum og tilhneigingum sem fram koma í verkunum, fyrst er að skapa, svo að túlka og skilja,” segir listamaðurinn.

Sigtryggur Bjarni Balvinsson er fæddur á Akureyri árið 1966.

Hann stundaði nám í Myndlistaskólanum á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi frá the École des Arts Decoratifs í Strassborg í Frakklandi.

Verk Sigtryggs hafa verið sýnd á einkasýningum og samsýningum á helstu söfnum hérlendis. Verk hans eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Háskóla Íslands, Hæstaréttar, Landspítalans og Gerðarsafns ásamt ýmissa stofnana og einkaaðila.

Sýningartímar er frá: 31. okt – 26. des frá: kl. 16:00-18:00

Staðsetning: Hverfisgallerí, Hverfisgata 4, 101 Reykjavík

Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.
© 2023 Miðborgin Reykjavík - Allur réttur áskilinn - Bankastræti 5, 101 Reykjavík
Miðborgin Reykjavík er samstarfsvettvangur rekstraraðila í miðborginni.